?
Í öllum 11 söfnum á íslensku      Aðeins í Braga, óðfræðivef     Nákvæmari leit

erindi
Erindi nefnist afmarkaður fjöldi braglína sem geta verið með ýmsu móti. Þegar talað er um bragarhátt er oftast átt við form hvers erindis fyrir sig.

Erindi skipast svo gjarnan saman í ljóð og líka er algengt að ljóð sé aðeins eitt erindi, einkum sé erindið langt. Erindum undir misjöfnum bragarháttum er stundum skipað saman í ljóð eftir ákveðnum reglum. Þannig er því til dæmis farið í sonnettu. Ítölsk sonnetta er gerð af tveim ferhendum og tveimur þríhendum. Slík samsett form eru fremur ljóðbygging en bragarháttur.

Stystu sjálfstæð erindi geta verið tvær línur. Erfitt er að ákvarða efri mörk en sjaldgæft er að þau verði yfir 16 línur. Reyndar eru til bragarhættir sem ekki hafa erindaskiptingu og unnt er að spinna í það óendanlega. Má þar nefna ítölsku tersínuna og íslenska romsuhætti.

Einstakar kveðskapar- eða kvæðagreinar einkennast af ákveðnum bragarháttum. Þannig eru til dæmis hættir rímna stuttir og formfastir. Enginn þeirra er lengri en fjórar braglínur. Svo stutt erindi eru yfirleitt nefnd vísur. Vers er nú einkum haft um erindi í sálmum.

Bein vísun á þessa flettu: wiki.php?w=erindi