?
Í öllum 11 söfnum á íslensku      Aðeins í Braga, óðfræðivef     Nákvæmari leit

Hver er sá veggur víður og hár

Lausavísa:Hver er sá veggur víður og hár,
veglegum settur röndum,
gulur, rauður grænn og blár,
gerður af meistara höndum?

Flokkar:Vísnagátur, Vísur úr rímum
Nánar um heim.:Þannig lærði skrásetjari, Kristján Eiríksson frá Fagranesi á Reykjaströnd í Skagafirði (f. 1945) vísuna ungur.
Inngangsorð og skýringar:
Gátu þessa hafa menn kunnað um aldir en fæstir líklega áttað sig á að hún er ættuð úr fornum rímum, Geiplum (20. vísu annarrar rímu), þar sem svo er lýst vegg keisarahallarinnar í Miklagarði: Veggrinn bæði víðr og hár, / vænum settur röndum, / grænn og dökkur, rauðr og grár / og gjörr af meistara höndum. Þannig prentar Finnur Jónsson vísuna í Rímnasafni II, bls. 368 eftir AM 145 8vo. Eins og Finnur bendir á í neðanmálsgrein er stuðlasetning 3. línu röng en rétt er hún í afskrift rímnanna í AM 615 i þar sem línan er „grænn og rauður gulr og blár“ og litir þeir sömu og í gátunni þótt orðaröð sé önnur.

Gáta þessi er nú höfð með ýmsu móti. Sumir hafa „vænum settur röndum“ eða „veglega settur röndum“ og aðrir segja „gjörður / gerður af meistarans höndum“.