?
Í öllum 11 söfnum á íslensku      Aðeins í Braga, óðfræðivef     Nákvæmari leit

Brottfararkveðja

Fyrsta ljóðlína:Ungur leist þú austursveita
Bragarháttur:[Bragarhßttur ekki skrß­ur]
Heimild:Munnleg heimild  
Viðm.ártal:2000
Leturstærð
Brottfararkveðja

1.
Ungur leist þú austursveita
yfirbragð og fjallahring
fæddur þar sem Feðgar heita
fast við Eldhrauns mikla lyng.

2.
Eystra fagurt var á vorin
en vötnin þarna ströng og breið
oftast bentu ævisporin
ungu fólki á vesturleið.

3.
Einnig hann í vesturvegu
vildi beina sinni ferð
óx í verki ýmislegu
– enda kempa traust að gerð.

4.
Víst er hægt að vera í borgum
og vinna sér til fremdar þar
ganga í takt á glaumsins torgum
– gleyma því sem áður var.

5.
Guðgeir þráði´ að byrja að búa
því bjuggu fyrrum áar hans
að gripum þar og grösum hlúa
– gegna boði skaparans.

6.
Bróðurpart úr Bitru keypti
þar búið höfðu kunnir menn.
Á muni og hús þar mark sitt greipti
þó misjafnt blási vindar enn.

7.
Þó ökutækja flaumi fljótum
flestir vilji sneiða hjá
Guðgeir stóð á styrkum fótum
við strauminn áratugi þrjá.

8.
Aldnir rýma alltaf bekki
– ungir stundum breyta til
því stundum tekst og stundum ekki
að standast lífsins harða byl.

9.
Síðar þegar seld er jörðin
sakna grannar víðst hvar.
Allir líta opin opin skörðin
– aðrir verða að koma þar.

10.
Í Kópavogi grösin gróa
gaman þarna löngum er.
– En ef þú birtist austur í Flóa
áttu víst menn fagni þér.
Guðgeir Sumarliðason í Bitru tók mikinn þátt í sönglífinu í Flóa og á Selfossi og söng á góðum stundum Betlikerlinguna eða Sverri konung með píanóundirleik. Á fullorðinsárum stundaði hann söngnám hjá Ingveldi Hjaltested í Tónlistarskóla Árnesinga. Hann flutti til Reykjavíkur þegar þau hjónin seldu Bitru um aldamótin 2000 og félagar hans í Söngkór Hraungerðisprestakalls buðu Guðgeiri á söngæfingu og sungu þar fyrir hann Brottfararkveðju með laginu Stenka Rasin. Sigurður skáld í Súluholti samdi textann af þessu tilefni.
Ljóð höfundar – Sigurður Guðmundsson Súluholti
Heiti:Brottfararkveðja
≈ 2000
Fyrsta ljóðlína:Ungur leist þú austursveita
Lausavísur höfundar – Sigurður Guðmundsson Súluholti
Sýna 23 lausavísur eftir höfundinn í öðrum söfnum á braganetinu