?
Í öllum 11 söfnum á íslensku      Aðeins í Braga, óðfræðivef     Nákvæmari leit

Hvort sem leiðin þín liggur

Fyrsta ljóðlína:Hvort sem leiðin þín liggur
Bragarháttur:[Bragarhßttur ekki skrß­ur]
Viðm.ártal:1900
Tímasetning:1910
Leturstærð
Hvort sem leiðin þín liggur

1.
Hvort sem leiðin þín liggur,
um lönd eða höf,
gefið sérhverjum sumar
og sólskin að gjöf.
Klappa blíðlega á barnskoll,
og brostu þeim mót
sem að harmana hylja
við hjarta síns rót.

2.
Það er samhygðar sólskin,
sem sæld veitir mest
það er langfagrast ljósið
og lífsyndið best,
sérhvert sann-kærleiks atlot
og sann-ástar hót
er vort eilífa lífið
og almeina bót.

3.
Hvert sem leiðin þín liggur,
þá líttu þar hýr.
þar sem sárdöpur sorgin
í sinninu býr.
Sérhvert hugtak og handtak
sé hlýlegt og þýtt.
Sérhvert orðtak og andtak
sé ástlegt og blítt.

4.
Það er margt sem að mæðir
þá mótlætis sál
sem allt finnst sér ögri
sem óslíðrað stál.
Hér er heimsauðn svo helköld
sem hafíssins gljá –
þeim sem allslausir æðrast
og engin ráð sjá.

5.
Hvert sem leiðin þín liggur
þá leggðu þeim ráð
sem að dauðvona dreymir
um drottins síns náð.
Gef þeim dug þinn og djörfung
að dafna sinn þrótt.
Gef þeim söng þinnar sólar
að syngja burt nótt.

6.
Sérhvert vinarorð vermir
sem vorsólarljós.
Sérhver greiði og góðvild
er gæfunnar rós. –
Hvort sem leiðin þín liggur,
um lönd eða höf,
gefið sérhverjum sumar
og sólskin að gjöf.


Ljóð höfundar – Þorsteinn Þ. Þorsteinsson
Fyrsta ljóðlína:Hve sannsögull leikur er líf okkar sjálft
Fyrsta ljóðlína:Hvort sem leiðin þín liggur
Lausavísur höfundar – Þorsteinn Þ. Þorsteinsson
Sýna 9 lausavísur eftir höfundinn í öðrum söfnum á braganetinu