?
Í öllum 11 söfnum á íslensku      Aðeins í Húnaflóa – kvæða- og vísnasafn     Nákvæmari leit

   Velkominn vertu til þessa vísnasafns lesari góður! Miðvikudaginn 6. ágúst 2014 fengu versin byr undir vængi inni á Árnastofnun v/Suðurgötu og hingað hyggjumst við að safna kvæðum og vísum sem tengjast byggðunum við Húnaflóa; sunnan úr austustu dölum Húnaþings, út að ystu bæjum Skaga og vestur um víða dali héraðsins, síðan norður Strandir og allt út að Geirhólmi.

  Hvað heita sveitir og kauptún við flóann? Við skulum byrja í einni helstu sveit kvæðamanna við flóann miðjan og fara réttsælis: Þar er Vatnsnes með kaupstaðinn Hvammstanga, Miðfjörður, Laugarbakki, Miðfjarðardalir sem eru Austurárdalur, Núpsdalur og Vesturárdalur, þá er Hrútafjörður með skóla og byggðasafni að Reykjum, Borðeyri, Víkurnar, Bitrufjörður, Krossárdalur, Kollafjörður, Steingrímsfjörður, Gálmaströnd, Miðdalur, Arnkötludalur, Tungusveit, Staðardalur, Selárdalur, Selströnd, kauptúnin Hólmavík og  Drangsnes eru bæði við Steingrímsfjörð, þá Bjarnarfjörður, Balar, Veiðileysu- og Reykjafjörður, Djúpavík, Gjögur, Trékyllisvík og Norðurfjörður, oft nefnt og er í Árneshreppi, síðan Ingólfs- og Ófeigsfjörður en nyrst er Skjaldabjarnarvík. Stöldrum nú við vísu Jörundar á Hellu á Selströnd sem hann orti um kisu sína:   
                                                  Svona týnast heimsins höpp,
                                                   horfin er kisa frá mér.
                                                   Nú verður ei framar loðin löpp
                                                   lögð um hálsinn á mér.

  Komið er nú að því að seilast austur yfir flóann, að Skagabyggðum þar sem Hreggviður skáld á Kaldrana tekur á móti Bragadrótt með vísu um veðrið. Í Kálfshamarsvík var fiskiþorp framan af tuttugustu öldinni og sveitin þar í kring var kölluð í Nesjum. Innan við Króksbjarg taka við Brekknabæir og prestsetrið forna á Hofi. Þaðan eru tvær bæjaraðir allt inn að kauptúninu Skagaströnd, en fyrrum bar sveitin Skagastrandarnafnið inn að Laxá á Refasveit. Frá kaupstaðnum á Skagaströnd, þar sem verslunarplássin kölluðust Hólanes og Höfði eða Kaupstaðurinn (Mt. 1816) liggur bæjaröð suður ströndina en upp frá henni ganga Hrafnsdalur, Hallárdalur, Norðurárdalur með leiðinni um Þverárfjall og svo sjálfur Laxárdalur, ein af grónu kvæðamannasveitunum og nær dalurinn tugi kílómetra inn milli fjallanna og skákar þar granna sínum Langadal sem er þó harla langur en mun lægri og jökulelfan Blanda líður áfram milli grasbakka og gróinna eyra. Inn af Laxárdal er bærinn Þverárdalur og bæirnir í  Skörðum.
  Austasti dalur Húnavatnssýslu er Svartárdalur, þá Blöndudalur, Sléttárdalur og Svínadalur. Út af þeim og niður með Blöndu kallast Bakásar en vestur þaðan liggja Ásarnir með kaupstaðinn við Blönduós. Þing og Vatnsdalur eru inn af Ásum  en Víðidalur og Fitjárdalur þar vestan við, um Línakradal liggur þjóðleiðin suður en frægðarsveitin Vesturhóp liggur til norðuráttar/sjá t.d. kirkjustaðinn Breiðabólstað og bæinn Rósu á Vatnsenda sveitin sú er vestan Víðidals/útdalsins og er þá aftur komið að byggðum Vatnsnesinga.


   Viltu senda inn vísu, ábendingu eða leiðréttingu: ihjstikill@gmail.com   Skrásetjari: Ingi Heiðmar Jónsson Engjavegi 67 800 Selfossi
                                                                                                                                                                                                                              


Fornar fréttir/Lítil ljóð:

Eimreiðin 1895/Valtýr Guðmundsson ritstjóri:
Tökum eitt einasta dæmi. Bóndi í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslu
þarf nauðsynlega að bregða sjer suður til Reykjavíkur um túnaslátt-
inn. Hann verður þá annaðhvort að fara landveg með marga hesta
og vera burtu frá heimilinu að minnsta kosti vikutíma, eða, ef
hann er hestalítill eða heilsutæpur, með strandferðaskipinu og
flækjast með því hringinn í kring um landið og vera hjer um bil
viku á skipsfjöl hverja leið. Hvað skyldi nú slíkt ferðalag kosta
hann um hásláttinn? En lægi nú járnbraut norður um land milli
Reykjavíkur og Akureyrar, þá gæti hann, ef eimlestin væri nokkurn
veginn hraðgeng, komizt til Reykjavíkur á hálfum degi, og komi
eimlestin hvergi við, jafnvel á fáeinum klukkustundum. Skyldi
hann ekki verða búinn að fá sauðarverð það, sem hann hefði lagt
í járnbrautina, borgað að fullu eptir fyrstu ferðina?
Bls. 13 http://timarit.is/files/9355515.pdf#navpanes=1&view=FitH

Andlát: Magnús Snædal Rósbergsson lést 3. des. og fór útför hans fram frá Neskirkju í dag, 22. des. Fagur söngur kammerkórs kirkjunnar setti mark á athöfnina, organisti Steingrímur Þórhallsson hóf forspilið með kórnum í Bach-laginu Slá þú hjartans hörpustrengi, síðan Fögur er foldin, þá söng kórinn án undirleiks Smávinir fagrir, sömuleiðis Heyr himna smiður eftir minningarorð, sem sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir flutti ágætlega.
Þórgunnur Harpa Snædal skrifaði eftir bróður sinn:„Magnús lagði m.a. stund á samanburðarmálfræði og frumgermönsk málvísindi og varð með tímanum einn af fremstu sérfræðingum heimsins í gotnesku.“
Þórgunnur segir ennfremur:„Ég bar gæfu  til að geta verið hjá honum nokkra daga undir langri og erfiðri banalegu hans á sjúkrahúsi í Barcelona. Þá stytti ég okkur stundir við að lesa fyrir hann úr bókum afa okkar og pabba og raula gamlar vísur.
Hann hélt fast í höndina á mér uns morfínið svæfði hann þar til yfir lauk.“

Magnús skráði um tíma vísur inn á Húnaflóa/vísnavef, ég hitti hann fyrst þegar ég átti stefnumót við Hjalta Pálsson ritstjóra í Norræna húsinu, en þeir þekktust og fljótt komumst við Magnús í norðurspjall, hann sagði mér frá dýrmætum stundum í húsi afa síns og ömmu á Syðra-Hóli þegar hann var þar sumar eftir sumar á drengjaárum sínum. Hann fyndi, að alltaf yrði hann meiri og meiri Húnvetningur eftir því sem árunum fjölgaði.
IHJ 221217
   

                                             
Hin hvíta rönd í hafi
    Kóngsbænadagur rann upp þetta vor eins og önnur vor, sólbjartur í norðlenskri fegurð. Tíð hafði verið mild og blíð þá um sinn. Þennan kóngsbænadag var fermt í Holtastaðakirkju í Langadal og hópur fólks úr Höskuldsstaðasókn gekk fram að Holtastöðum til þess að vera við ferminguna. Friðrik slóst í þann hóp. Þegar heim var haldið, voru allir í hátíðaskapi, glaðir og spjölluðu af kátínu uns komið var á hæðardragið utan og ofan við Breiðavað. Þar sló þögn á hópinn. Breiður og bjartur Húnaflóinn blasti þar að vísu við sjónum eins og vera bar. En handan hans bar hvíta rönd við bláleit Strandafjöllin og glóði í sólskininu. Hafísinn var kominn. – Og hver gekk hljóður heim til sín.
    Morguninn næsta þakti nær vakarlaus ís allan flóann. Frá Síðu sást þó til vakar nærri landi. Þar brutust tveir hvalir um og börðust fyrir lífi sínu, þeyttu strókum hátt í loft og slógu saman sporðum og búkum. Skellirnir glumdu eins og fallbyssudrunur í fjarska svo að undir tók í fjöllunum. Friðrik horfði á þann hildarleik uns vökin lokaðist með öllu yfir fjörbrot hvalanna.
    Ísinn læsti krumlu sinni um allt norðanvert landið og austanvert, boraði fingrum inn í hvern fjörð og hverja vík. Hann sleppti ekki takinu fyrr en um höfuðdag. Vorið kyrkti hann í greip sinni. Gróðurnálina kól, bændur gáfu upp hey sín, horfðu á unglömb sín krókna úr kulda og vistir gengu til þurrðar í búri og skemmu. Ekkert var í kaupstaðinn að sækja því að engin vorskip náðu landi. Þeirra í stað urðu þó miklir hvalrekar hér og þar – undan ísum og hvalur var búsílag í harðindum. Þannig rak eina 38 hvali á einum stað í Húnavatnssýslu. Bændur komu þangað hvaðanæva með stórar lestir til kaupa á hvalkjöti. Í hverri viku snjóaði og fraus og blés kuldanæðingi. Hinn tuttugasta og fimmta dag maí þegar liðin voru fjórtán ár af ævi Friðriks, var grenjandi stórhríð. Í annál einum stendur raunar, að hinn tuttugasta og fjórða hafi hríð verið svo dimm um Norðurland að kunnugir menn hafi villst af alfaravegi.
    Sumarið er 1882


  Sr. Guðmundur Óli Ólafsson/Ævisaga séra Friðriks Friðrikssonar f. 25. maí 1868 - d. 9. mars 1961
  Faðir Friðriks, Friðrik smiður Pétursson, hóf smíði á nýrri kirkju að Svínavatni vorið 1878 en handan vatnsins bjó prófasturinn, sr. Jón Þórðarson á Auðkúlu, bróðursonur Jóns þjóðsagnasafnara Árnasonar. Hann kom annan hvern helgan dag til að messa á Svínavatni. Hann lánaði Friðriki Eglu og margar fleiri bækur, Landnámu fékk hann hjá Erlendi í Tungunesi en Noregskonungasögur hjá Jónasi á Tindum, ömmubróður sínum. Og hjá Húnvetningum dvaldi Fr.Fr. unglingsár sín eins og höf. GÓÓ greinir frá, þrjú ár á Svínavatni, á þeim árum lést faðir hans, en þegar heimilið var leyst sundur var Friðrik ráðinn smali að Síðu í Höskuldsstaðasókn, þaðan var hann fermdur. Um hvítasunnu 1883 fer Friðrik til Stefáns á Heiði og Stefán yngri miðlar honum af þekkingu sinni á latínu. Sr. Zóphónías í Goðdölum bauð honum til sín að nema, en suður til Rv. kemst hann 23. sept. 1886 en þá bjuggi í bænum 3040 íbúar.   Skráð á síðuna 9/10 2017 IHJ                                           Hann var hjarðmaður 
og átti hjörð sína einn -- segir Rósberg G. Snædal um Ólaf Bjarnason/Skáldið frá Elivogum og fleira fólk -- Úrdráttur úr þætti RGSn.: Ólafur Bjarnason frá Stafni 
bls. 77-79


            „Ólafur Bjarnason var næstyngstur 5 barna hjónanna í Stafni í Svartárdal, þeirra Margrétar Jónsdóttur og Bjarna Ólafssonar. Hann ólst upp í Stafni með foreldrum sínum. Hann var efnilegur, skýr og skikkanlegur eftir vitnisburði sóknarprestsins að dæma og fékk ágætt í flestum skyldufögum við fermingu.                     Eftir að foreldrar hans brugðu búi, gekk hann í vistir og var víða, en lengst af í Svartárdalnum og nærsveitum.
             Persónulega kynntist ég Ólafi ekki fyrr en eftir 1930. Hann var þá orðinn aldinn að árum og laus í vistum. Var mikið á faraldsfæti og ferðalögum. Hann var hjarðmaður og átti hjörð sína einn. Það voru 10-15 hross.
             Hann var á hrakhólum með þennan pening sinn og raunar enginn maður til að sjá honum farborða, hvorki vetur né sumar. Þrautalending hans varð því Laxárdalur, heimasveit mín. Þar voru þá ýmsar jarðir komnar í eyði og því hægt að fá þar haga og heyskap fyrir lítið. Þarna hafði Ólafur hrossin sín í nokkur ár og gengu þau að mestu sjálfala, því árferði var þá gott. Sjálfur var hann að baksa við heyskap á sumrum og fékk slægjur bæði í Mjóadal og Skyttudal en þær jarðir voru þá í auðn.
             Þótt Ólafur væri svona hrossamargur, átti hann enga drógina tamda og varð því alltaf að notast við eigin fætur, þegar hann þurfti að bera sig yfir. Hann var orðinn stirður til gangs og að sama skapi lélegur heyskaparmaður. Það sýndist mér þó, að hann mundi ekki hafa verið óliðlegur sláttumaður meðan hann var og hét. Einhverjir urðu oftast til að hjálpa honum að hirða það litla, sem hann reytti af heyi. Var það sett saman á ýmsum stöðum, ýmist í tóttarbrotum eyðijarðanna eða úti á víðavangi. Aldrei urðu þau heyin há í loftinu, voru illa upp borin og gegndrápu því oftast. Oft kom það líka fyrir að hrossin hans skömmtuðu sér sjálf, það af þeim, sem ætilegt var þegar harðna tók á dalnum. Brutu þau þá upp kleggjana. Ólafur leit oft til þeirra á vetrum og var hrein furða, hvað hann entist til að pjakka í frosti og fönnum.
           Ekki átti Ólafur neinn verslegan auð nema hrossin og fötin sem hann gekk í. Hann seldi eitt og eitt hross fyrir nauðþurftum sínum, en var sárt um að ganga á stofninn og sparaði við sig flestar lífsnautnir nema neftóbak. Einhvern veginn varð honum aldrei mikið við hendur fast, þótt einhleypur væri.“

http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=o2&ID=17500 

Auglýsing          Úr Norðanfara 1860

            Vorið 1857 rak 3 reyðarhvali á grunn fyrir Harastaðalandi á Skagaströnd. Fyrir jörðu þessari er kallað, að nokkrar kirkjur í Húnavatnssýslu eigi allan hvalreka. eins og víðar í Vindhælis-, Skefilstaða- og Engihlíðarhreppum, undir nafninu Spákonuarfur.
            Eigandi jarðarinnar Jón bóndi Jónsson í Háagerði mátti því þetta happ „sjá og ekkert fá" en fann sig bæði gamlan og efnalítinn til að láta
dómstólana leysa þann hnút upp, hvort hvalrekinn væri með lögum kominn  frá  jörð sinni og öðrum, er kúra undir slíkum ókjörum; einkum þá etja var, við „ofjarla þá, er vísa áttu gjafvörn í málinu.
            Það er nú samt ekki víst, hvort Jón bóndi hefði látið þetta kyrrt ef kirknahaldararnir ekki hefðu séð það ráðlegra, að „slá til heys og haga"
og greitt honum sæmilega fyrir þann átroðning af fólki og usla af hrossum sem hann þola hlaut meðan á hvalskurðinum stóð.
            Af þessu gjaldi hefir nú Jón bóndi Jónsson fríviljuglega gefið Vindhælishrepps fátækrasjóði 50 rd. næstliðið haust, hverrar rausnargjafar okkur undirskrifuðum, þykir vert að minnast opinberlega honum til verðskuldaðs heiðurs, undir eins og við vottum hinum veglynda gjafara þakklæti
vort, þeirrar okkur (um stund) fyrir trúuðu fátæku sveitar vegna.
Höfnum   16. marzmánaðar. 1860.
Árni Sigurðarson.    Jón Guðmundsson.
hreppstjórar.   

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=138452&pageId=2036364&lang=is&q=1860#

Efni auglýsingarinnar er að hreppsstjórar sveitarinnar vilja þakka Jóni í Háagerði fyrir 50 ríkisdala gjöf í fátækrasjóð, en geta þess í leiðinni að peningana hafi hann þegið vegna átroðnings við hvalskurð á þremur hvölum á landi hans, sem kirkjuhaldarar í nágrenninu þóttust eiga með að ráðstafa, en bættu honum þó átroðninginn. Jón í Háagerði er afi Halldóru Bjarnadóttur skólastjóra og prima kvenfélagskonu og hún segir frá Háagerðisheimilinu í ævisögu sinni. IHJ


                            Undirbúningur alþingiskosninga -- úr Fjallkonunni 6. ágúst 1900
Ísafold og Þjóðólfur hafa flutt í síðustu blöðum fregnir um undirbúning alþingiskosninganna, og jafnframt tillögur sínar. Fjallk. hefir hinsvegar fyrir sitt Ieyti leitað sér frétta um hið sama efni víðsvegar á landinu, og fer þar alls ekki eftir fréttaburði hinna blaðanna.
Austur-Skaftfellingar kjósa að Iíkindum séra Jón Jónsson aftur. Hann gefur eflaust kost á sér, og þótt honum sé annað betur gefið en að vefjast í þingmálum, er engin frágangssök að kjósa hann. Hann hefir komið heldur vel fram á þingi í flestum málum. — Austurskafttellingar hafa hvort sem er ekki öðrum á þing að skipa að sögn, úr því Þorleifur Jónsson hreppstjóri í Hólum gefur ekki kost á sér, sem eflaust er lang-álitlegasta þingsmannsefnið af bændum þar um slóðir.
Vestur-Skaftfellingar kjósa eflaust aftur sýslumann sinn, Guðlaug Guðmundsson, sem óneitanlega er duglegur þingmaður og góður í mörgum greinum, þótt mönnum líki ekki ýmsir kækir hans. Rangæingar munu eflaust kjósa Þórð Guðmundsson í Hala, en um hinn þingmanninn er óvíst. Séra Eggert á Breiðabólstað mun bjóða sig fram, en hefir að sögn ekki mikið fylgi. Líklegra þykir að Magnús sýslumaður Torfason næði kosningu, ef hann byði sig fram, sem búist er við.
Árnesingar hafa líklega ekki um marga að velja, því nú er það borið aftur, að Hannes ritstjórí Þjóðólfs gefi þar kost á sér, og óvíst um Tryggva Gunnarsson, sem nokkurn veginn má telja víst, að hafi þar nægilegt fylgi. Þá eru eftir af þeim frambjóðendum, sem þar hefir verið um getið, þeir Sigurður Siqurðsson búfræðingur frá Langholti og séra Magnús Helgason á Torfastöðum. Hinn fyrnefndi er alkunnur, og munu bændur að sjálfsögðu kjósa hann, því hann mun manna mest vinna að gagni laudbúnaðarins á þingi, og séra Magnús er í góðum metum hjá Árnesingum eins og flestir prestar þeirra, og mun því hafa mikið fylgi.
Gullbringu- og Kjósarsýsla er sízt í vandræðum stödd að því leyti, að nóg bjóðast þar þingmannaefni: hinir gömlu þingmenn, Þórður Thoroddsen og Jón Þórarinsson, og auk þeirra Björn Kristjánsson kaupmaður, og bændurnir Guðmundur Magnússon í Elliðakoti og Þórður Guðmundsson á Hálsi. — Ennfremur Gísli Þorbjarnarson búfr. Kunnugir menn segja, að Þórður Thoroddsen muni að líkindum ná kosningu, en að vafasamt sé, að Jón Þórarinsson verði kosinn. Þar á móti hafi Björn Kristjánsson allmikið fylgi suður með sjónum, og að þeir Guðmundur og Þórður hafi eflaust einnig flokk hvor úr sinni sveit.
Reykvíkingar. Þar hefir enginn boðið sig fram svo kunnugt sé, en hinn fyrrv. þingmaður mun eflaust gefa kost á sér. — Hins vegar er sagt, að margir bæjarmenn hafi þegar ritað undir áskorun til bankastjóra Tryggva Gunnarssonar um, að haun gefi kost á sér fyrir Reykjavík, og virðist það óþarft, með því að hann mun hafa nóg fylgi í Árnessýslu, en að öðru leyti mun hann engu síður hæfur til að sitja á þingi nú en áður, þó hann hafi mörgum öðrum störfum að gegna. Hefir verið bent á það áður í þessu blaði, að hann hefði meiri praktiska þekkingu og reynslu en flestir aðrir þingmenn, en skoðanir hans á stórpólitík þarf alls ekki að taka til greina.
Borgfirðingar. Þeir eiga kost á Birni Bjarnarsyni í Gröf og prestaskólastjóra Þórhalli Bjarnarsyni. Enn er óvíst hvor meira fylgi hefir, en sagt að fleiri muni fylla flokk Bjarnar.
Í Mýrasýslu bjóða sig fram þeir prófastarnir séra Magnús Andrésson á Gilsbakka og séra Einar Friðgeirsson á Borg. Alveg óvíst, hvor þar muni bera sigurinn úr býtum.
Snœfellingar eru að sögn einráðnir í að kjósa sýslumann sinn, Lárus Bjarnason.
Dalamenn eiga völ á þeim tveimur, sínum fyrv. þingmanni, séra Jens Pálssyni, og Birni sýslumanni Bjarnarsyni, en óvíst um horfurnar.
Barðstrendingar endurkjósa efiaust hinn fyrra þingmann sinn, séra Sigurð Jensson. Isfirðingar munu að líkindum kjósa hina sömu þingmenn og áður. Þó er sagt að sýslumaður þeirra, Hannes Hafstein, muni bjóða sig fram, og gæti þá svo farið, að annarhvor hinna næði ekki kosningu.
Strandamenn kjósa eflaust fyrveranda þingmann sinn, Guðjón Guðlaugsson.
Hjá Húnvetningum eru að sögn í boði Björn Sigfússon, fyrrv. þingmaður þeirra, Halldór Briem skólakennari, Júlíus læknir Halldórsson, Jósef Jónsson bóndi á Melum og jafnvel séra Bjarni Pálsson í Steinnesi. Eru tveir hinir fyrstnefndu Iíklegir til að ná kosningu.
Skagfirðingar eiga völ á mörgum. Auk Ólafs Briems bjóðast þar að sögn: Stefán skólakennari Stefánsson á Möðruvöllum, séra Zófónías Halldórsson í Viðvík, Rögnvaldur Björnsson bóndi í Réttarholti og Jón Jónsson hreppstjóri á Hafsteinsstöðum. Líklega verður Ólafur Briem enn kosinn, enn óvíst, hver hinna verður hlutskarpastur.
Eyfirðingar kjósa eflaust aftur Klemens Jónsson sýslumann, og sagt er að Jón A. Hjaltalín skólastjóri á Möðruvöllum hafi þar mest fylgi næst honum. Annars eru þar í boði: Friðrik kaupmaður Kristjánsson og bændurnir Stefáu Bergsson á Þverá, Stefán Stefánsson í Fagraskógi og Sigurður Jónasson á Hrauui. Suður-Þingeyingar kjósa eflaust hinn fyrrv. þingmannn Pétur Jónsson.
Norður-Þingeyingjar er sagt að muni kjósa séra Arnljót Ólafsson, sem nú gefur kost á sér. Hefir „Þjóðólfur" nýlega mælt með honum og „Ísafold" líka, því hún telur hann meðal þeirra presta, sem þjóðin hafi betur gert að senda á þing en bændur (upp og niður).
Norðmýlingar. Þar býður sig fram séra Einar Þórðarson í Hofteigi og verður að líkindum kosinn, og líklega séra Einar á Kirkjubæ aftur, ef hann býður sig fram. Annars óvíst um þingmannsefni í stað hans. Sunnmýlingar kjósa líklega sína fyrrverandi þingmenn.
 Skráð inn vísnavef 8. mars 2016
 Ekki er víst að fleiri en fjórir bændur verði á næsta þingi, og ef til vill ekki nema þrír, ef Húnvetningar kjósa ekki bændur. Svo fá atkvæði hafa bændur aldrei haft á alþingi. Það verða nú sýslumenn og prestar, sem ráða öllum lögum og Iofum á þinginu. Þeir bændur, sem telja má víst, að verði endurkosnir eru: Guðjón Guðlaugsson, Pétur Jónsson og Ólafur Briem. Það er nú reyndar vonandi, að Húnvetningar kjósi að minnsta kosti annan þann bónda, er þar gefur kost á sér, en helzt ættu þeir að kjósa þá báða. Um Björn Sigfússon hefir áður verið talað, en Jósep Jónsson á Melum er líka sagður gott þingmannsefni og ætti Húnvetningar að veitt. honum fylgi sitt. Múlsýslungar eiga nú völ á tveimur efnilegum bændum að sögn, þeim Jóh. Baldv. Jónssyni í Stakkahlíð og Sveini Ólafssyni í Borgarflrði, en eftir útlitinu má búast við, að sýalumenn og prestar taki einnig fyrir kverkar Múlsýslingum. Það er nú opinbert leyndarmál, hvaðan sú alda er runnin, að gera bændur útlæga af þingi og skipa það helzt sýslumönnum, og mun Fjallk. bráðlega ljósta því upp. Fjallk 25. ág. 1900

                                                                          Fyrir 115 árum
Húnavatnssýslu (norðanv.), 3. jan.: Árið sem leið hefir verið mjög gott til lands og sjávar. — Fiskafli hefir verið stöðugt, og nú skömmu fyrir jól fengu Nesjamenn 16 í hlut af vænum fiski. — Skepnuhöld hafa verið góð. — Verzlunin amar helzt að. Húu virðist lítið batna; þó má geta þess, að fjártaka hefir veríð góð og blautfisksverð ágætt, en aftur hækkuðu margar útlendar vörur að mun, svo allt er í sama farinu. Nokkur bót var þó að vörusendingum frá Thomsens verzlun í  Reykjavik fyrir þá sem skiptu beint við Ó. Hjaltesteð, en varla reynist eins vel að skipta við Þorstein Bjarnason, sem byrjaði að verzla hér síðastliðið sumar. — Kaupfélag Húnvetninga hjarir enn. 

  Aðfaranótt 3. nóv. í vetur brann bærinn á Hámundarstöðum í Vopnafirði hjá Birni bónda Jónassyni til kaldra kola. Fólkið, húsbóndinn með konu og börnum, gat með naumindum bjargað sér undan eldinum klæðlaust að kalla. Bærinn og innanhúss munir voru vátryggðir fyrir 5000 kr., en skaðinn er samt metinn 2000 kr., með því engu varð bjargað og þar brunnu meðal annars allar vetrarbirgðir heimilisins.
  Bóndinn fór þegar til Vopnafjarðarkanpstaðar að sækja við til að þilja innan fjárhúskofa, þar sem hann ætlaði að. láta fyrir berast í vetur með konuna og börnin. En þegar hann var á heimleið úr kaupstaðnum á skipi með viðarfarm, gerði á hann norðanbyl, svo að hann varð að snúa aftur og gat með naumlndum náð aftur til kaupstaðarins.
  Í þessum sama byl missti hann 30 fjár í sjóinn, því enginn var heima til að gæta fjárins. Bóndinn er Húnvetningur, en konan er Sunnlendingur.
  Úr Fjallkonunni í jan. 1901 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=149705&pageId=2138290&lang=is&q=FJALLKONAN#  Skráð inn á vísnavef 231115

                                             Lausavísur 
                         
Grein eftir ritstjóra Vald. Ásm. í vikublaðinu Fjallkonan 3. jan. 1895
Ekkert land mun auðugra af alþýðukveðskap en Ísland. Rímnaöldin er nú að mestu undir lok Iiðin, og skal ég ekkert um það segja, hvort það fer betur eða verr. En svo mikið er víst, að alþýðukveðskap hefir ekki farið fram hér á landi á síðari hlut þessarar aldar, því þessi nýmóðins kveðskapr er ekki betri enn hin eldri kvæði. Það sem er sérstaklega íslenskt er meir og meir að hverfa, og kemur nú helst fram í einstaka lausavísu. Það er auðvitað, að margt af hinum eldra kveðskap hefir líka lítið skáldlegt gildi, en af því menn ortu um alt sem nöfnum tjáði af nefna, alla viðburði, siðu, aldarhátt o. s. frv., þá hefir þessi eldri kveðskapur talsvert sögulegt (og menningarsögulegt) gildi, og ætti því að safna honum t. d. á Landsbókasafnið. Enn það er einkum eitt í alþýðukveðskap, sem vert er að halda á lofti og það eru ýmsar lausavísur gamlar og nýjar. í þeim felst oft góður kjarni. Mér hefir því komið til hugar, að biðja þá menn út um land, sem kunna laglegar og fyndnar lausavísur, hvers efnis sem eru, hvort heldur gamlar eða nýjar, að skrifa þær upp og senda mér. Höfundanöfn ætti að geta um, ef þau eru kunn, og ef sögur fylgja vísunum verðr að skrifa þær líka. Þessar vísur mundu þá síðar verða gefnar út í sérstöku riti, eða ef til vill yrði eitthvað af þeim prentað í Fjallk. (með smáletri) undir fyrirsögn „Alþýðukveðskapur".
Vald. Ásmundarson.

  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=149705&pageId=2138290&lang=is&q=FJALLKONAN#   skráð 15. sept. ´15

                                         Höfuðorrusta flokksforingja
Síðla vors 1926 var boðað til almenns stjórnmálafundar á Sveinsstöðum og munu framsóknarmenn hafa átt frumkvæði að honum. Það spurðist um sveitir, að þangað væri von stórmenna til þess að leiða saman hesta sína. Menn töldu víst, að þetta yrði ein af höfuðorrustunum, sem háðar voru þessi misseri milli flokksforingjanna. Fólk streymdi því á fundinn, enda átti það sæmilega heimangengt milli vorverka og heyanna og veður var ágætt þennan dag, sólskin og lognblíða. Þetta varð langsamlega fjölmennasti stjórnmálafundur, sem haldinn hafði verið í Húnaþingi, enda var hann lengi í minnum hafður.
            Fundarstaðurinn var í fallegri og sólríkri dæld sunnan við Sveinsstaði, en heima í skólahúsinu stóð Bjarni Jónasson á Eyjólfsstöðum fyrir kaffiveitingum og fékk mikil viðskipti og nokkurn gróða þennan dag. Ég hlakkaði mjög til að sjá og heyra flokksforingjana, þá Jón Þorláksson, Jónas Jónsson og Tryggva Þórhallsson, enda hafði ég engan þeirra séð fyrr en því meira af þeim heyrt og eftir þá lesið. Svo mun hafa verið um langflesta fundarmenn, og víst er um það, að vel var hlustað á ræður manna þennan dag í Vatnsdalshólum.
            Það kom brátt í ljós, að erindi Jónasar Jónssonar á þennan fund var að freista þess að kippa fótunum undan Þórarni á Hjaltabakka, enda var hann að sjálfsögðu mestur Þrándur i Götu á sigurgöngu framsóknarmanna í héraðinu, og Jónas skildi það auðvitað hárrétt, að mestu máli skipti að ryðja honum úr vegi og veikja traust manna á honum. Jónas gerði því að honum geysiharða hríð og notaði sér út í æsar ofurlitla forsögu, sem gerst hafði nokkrum misserum áður og valdið nokkru umtali.
 
                                                  
Ágúst á Hofi lætur flest flakka 1971 Skráð inn á vefinn 190815


                                             Nú er bjart um land og lá.
                                             Lífið sýnir engar glettur.
                                             Jafnvel Blanda er hýr á há
                                             og Húnaflói spegilsléttur.
 

                                                                                      -- -- --

                                                           
Hratt ég ek um Húnaþing
                                               Hér eru vegir greiðir.
                                               Mikið gras, en lítið lyng
                                               leiti og ásar breiðir.

                                                                             Ármann Dalmannsson                                                      110715

                                   Stiginn dans af hofmannsbrag
Að áliðnum vetri 1909 fór ég í fyrsta skipti á samkomu út á Blönduós, án samfylgdar foreldra minna, þá sextán ára að aldri. Guðrún Björnsdóttir á Kornsá hafði verið kennari í dalnum og var nú trúlofuð Þormóði Eyjólfssyni, sem einnig var í Vatnsdal við einhver störf. Ég fékk að fara ríðandi með þeim á samkomuna. Faðir minn lánaði mér gráan góðhest, og þetta varð ævintýri sem ég gleymdi aldrei. Þessi ungu og glæsilegu hjónaefni voru mér sem draumsýn um lífið framundan. Samkoman varð mér stórkostleg nýjung. Þá heyrði ég einsöng í fyrsta skipti. Það var frú Sigríður Arnljótsdóttir, kona Jóns læknis sem þar söng betur en nokkur engill. Þarna var leikið á orgel fyrir dansi, sem stiginn var af meiri kunnáttu og meiri hofmannsbrag en ég hafði áður séð. Þarna voru Möllersbræður og aðrir verslunarmenn, og yngismeyjar og frúr staðarins eins og drottningar. Templarahúsið var höll á þessu kvöldi.
Daginn eftir lögðu nokkrir kunningjar Guðrúnar og Þormóðs á Blönduósi á gæðingana og fylgdu þeim og fleira fólki á leið. Þá mátti sjá margan fallegan sprettinn á Húnavatni.
Paraböllin svonefndu voru hefðarmestur mannfagnaður á þessum árum. ég man vel eftir paraballinu í Vatnsdal 1910. Verið var að byggja stórt íbúðarhús á Flögu, og var þar salur stór, meðan húsið hafði ekki verið hólfað sundur. Þar voru í Vatnsdal allmargir höfðingjasynir ókvæntir, svo sem Guðjón í Hvammi og Jón á Hnjúki, og einnig margt ungra hjóna. Jón og Guðjón stóðu fyrir paraballinu. Þeir höfðu báðir verið á Hólum en annar aðeins einn vetur og því sagði Jósep á Hjallalandi, að hálfur annar búfræðingur hefði verið þarna að verki. 
 Ágúst á Hofi lætur flest flakka Skráð 030715

                                                          Frímann
Þegar ég var unglingur heima hjá foreldrum mínum í Holtastaðakoti, gisti eitt sinn hjá okkur roskinn bóndi, Frímann Guðmundsson, oftast kallaður Frímann barnakennari því aðalstarf hans á vetrum var að kenna börnum. Þá var enginn barnaskóli; Frímann varð því að vera tíma og tíma í stað þar sem helst voru skilyrði til að geta bætt við sig fólki. Mörgum þótti stór fengur í að hafa Frímann um tíma. Hann var maður fróður, vel hagorður, víðlesinn og hafði manna best lag á að stytta löngu dimmu vetrarkvöldin. Sannarlega bar hann ljós í bæinn; aldrei var þrot né endir á gömlum og nýjum fróðleik hjá honum og þar að auk var frásagnarlist hans dæmalaus.
Ingibjörg Lárusdóttir -- dótturdóttir Bólu-Hjálmars Úr djúpi þagnarinnar Rv. 1936 skráð 270515
                                                                        
                                                                          Komu alvöruár 
    Ingunn Jónsdóttir á Kornsá skrifar merka minningabók, Gömul kynni; mest af grönnum hennar í Vatnsdal og víðar úr sýslunni.  Hún skrifar um uppvöxt manns síns, Björns Sigfússonar á Vatnsnesinu og segir:
   Margt var þá um hagyrðinga á Vatnsnesinu. Voru þeir taldir einna fremstir Sigurður Bjarnason og Agnar á Illugastöðum. Auk þess dvaldist Lúðvík Blöndal þar stundum um tíma hjá systur sinni á Tjörn. Var hann hagmæltur vel og létt um að kasta fram stöku. Vildi Björn fylgjast með og orti talsvert á þeim árum. En ekki hélt hann því saman og mun flest af því gleymt, enda kvaðst hann ekki geta talið sér annað til gildis í þeim efnum, en að hann hefði sér í tíma, að hann væri ekkert skáld og hætt við allar skáldskapargrillur. Þó brá hann því alltaf öðru hvoru fyrir sig að gera vísur, einna helst um börn sín og uppáhaldsreiðhesta og einstaka gamanvísur.
   Þannig liðu æskuár Björns, án þess að neitt sérstaklega óþægilegt kæmi fyrir; því að þótt leiðir hans lægju stundum með fólki, sem honum féll ekki við, og ýmislegt væri af skornum skammti á heimilinum, t.d. þegar ekki var til annað útálát á grautinn en slátursdrukkur, þá gleymdist það fljótt, þegar betri tímar komu. En eins og hann segir í kvæði, sem hann orti seinna og lýsir fyrst æsku sinni:
                                                         svo komu alvöruár
                                                         umbreyttist gleði í tár.
                                                 070515

                                                                   Ólög vakna heima
   Þá vildi svo til skömmu áður en ég að Norðlingavaði kom á Öxará að ég reið fram á hóp manna á leið til þings þar sem þeir áðu nærri götunni. Þar var ásamt mönnum sínum á ferð sá vísi og frómi og háæruverðugi lögmaður, Árni Oddsson. Í hans fylgdarliði voru einhverjir er mig þekktu frá Hólum og sögðu nú lögmanni Árna til mín, og af því gat ég merkt hve nafnkunnur maður ég orðinn var fyrir tilverknað minna hatursmanna er hann kannaðist við mig þegar og sagði:
  Svo þú ert þá þessi Guðmundur sem ögrað hefur öllum landsins yfirvöldum, sýslumönnum jafnt sem biskupi og konungi. Þú ert furðu djarfur maður þó ekki sértu mikill fyrir mann að sjá. En hvað heldurðu vinur að verði nú um þig er þú fyrir höfuðsmann verður færður fyrir að andmæla gildandi lögum? Því sagt er að hann vilji taka þig til fanga . . .
  Kvaddi ég síðan lögmann og hans fylgdarlið og hélt áfram minni ferð og stefndi á Kaldadal. Þegar langt var liðið á kvöld fann ég mér næturstað í grasi gróinni brekku sem þar verður áður en lagt er á brattann. Ég spretti af hestunum og bjó vel um fiskinn þar á grundinni, vafði um mig segli og sofnaði undir beru lofti, enda veður milt og fagurt.
  Þórarinn Eldjárn/Brotahöfuð og leggur orð í munn Guðmundi Andréssyni frá Bjargi í Miðfirði, sjá vers hans hér á vefnum:
                                           Forlög koma ofan að,
                                            örlög kringum sveima,
                                             álögin úr ugga stað
                                             ólög vakna heima.                                                                                                                     skráð 300415                                                        Sumarmál á Réttarhóli 
   Bugsmenn höfðu þá hross sín á heiðinni meðan nokkur snöp voru og lágu í skála áður en ég byggði en eftir það hjá mér og vitjuðu um hross sín á hálfsmánaðarfresti þegar fært var veðurs vegna og þótti mér ævinlega vænt um þegar þeir komu. Ég hafði mikla skemmtun af þeim og ef mig vantaði meðul handa börnunum, þá voru þeir alltaf boðnir til að ná þeim og koma til mín og eins hefði það verið, hefði eitthvað borið út af, þegar þeir komu; það voru Jónar tveir, annar frá Þröm en hinn frá Eldjárnsstöðum, heiðamenn miklir og óragir og svo einhver með þeim frá Eiðsstöðum. Þá um veturinn, miðvikudaginn seinastan í vetri kemur Jón frá Eldjárnsstöðum gangandi og hefur hnakkhest í taumi og flytur í hnakknum sitt af hverju handa okkur til sumardagsins fyrsta og eins gerir hann vorið eftir. Þá bið ég hann að gera þetta ekki oftar, því nú sé ég farinn að standa mig svo vel. Og Guðrún systir hans kom einu sinni. Hún lá við grös. Hún fór úr alveg nýju bláu vaðmálspilsi og gefur konu minni. Þarna lýsti sér hvern mann þau höfðu að geyma, enda voru þau systkin samvaldar ærumanneskjur. 
Björn Eysteinsson/Sjálfsævisaga BE 81-82

Manntal 1890 Réttarhóll
Björn Eysteinsson húsbóndi 42 ára 
Helga Sigurgeirsdóttir húsmóðir 39 ára,
Guðrún(síðar húsmóðir á Guðlaugsstöðum, móðir Björns alþm. á Löngumýri, Huldu á Höllustöðum, og systkina þeirra) dóttir húsbónda 15 ára,
Sigurgeir 5 ára
Þorsteinn 3 ára
Lárus 0 ára.

Bugsbæir voru fremstu bæir í Blöndudal, vestan ár: Eiðsstaðir, Eldjárnsstaðir og Þröm
                                                                                                                                                                                                                      070415


                                                        Átján þúsund íbúar í Rv. 
Annars gladdi það mig mikið að sjá hinar miklu framfarir heima, ekki síst í Reykjavík, sem hefur tekið afarmiklum stakkaskiptum  síðan ég kom þar seinast(1913). Þar eru nú 18 þúsund íbúar og fallegar og hreinlegar götur og fjöldi af nýjum stórhýsum, rafmagnsljós, gasstöð, vatnsveita -- og svo höfnin. Nú þarf ekki að róa langa leið í land á óhreinum fleytum, en maður gengur sjálfur í land. 
                                                                         
Dr. Valtýr Guðmundsson í Khöfn skrifar stjúpföður sínum í Ameríku 30. sept. 1921

                        Vor og grænir hagar 
                   Vilhjálmur á Brandaskarði f. 1894 sagði:
                                 Þó að lífið þokkasmátt
                                 þætti flesta daga.
                                Við höfum stundum vinur átt
                                vor og græna haga. 
                                                               Sjá Vilhjálm í vísnasafninu 250215


                                    Ærnar fóru víða til þess að hitta frelsið
   Til þess að vera fljótari að sakna ef vantaði af ánum, reit ég nöfn þeirra á blað og lærði þau svo utan að sem hverja aðra þulu. Þegar mjaltakonur höfðu lokið við að mjalta hverja á, báru þær froðu á malir henni til auðkennis.
   Aldrei hafði ég hest í hjásetunni og voru það sem óskráð lög, Fæturnir áttu að vera smölunum fararskjótar. Stundum voru þó klárarnir við hendina. Aldrei minnist ég þess, að ær væru hýstar fram eftir nóttu um hjásetutímann, hverju sem viðraði. Í illviðrum sat ég þær lengst fram í fjalli, því að þar var skýlla en úti í Slakka. Og frammi í fjalli var þeim meira haldið hvað sem veðri leið. Eftir að hjásetu lauk, voru þær ávallt reknar fram eftir. 
   Illviðrisnætur þóttu mér lengi að líða, því að þær færðu með sér hroll í bakið og gerðu loppna fingur. En það fylgdi því þó ávallt nokkur sigurgleði að koma með allan ærhópinn heim að morgni eftir slíkar nætur.
   Eftir að hjásetu lauk, tók smalamennskan við. Hún var að vísu ekki jafn leiðigjörn, því að þá naut ég þess að vera með fólki meira en áður. En erfið var hún, því að ærnar fóru víða til þess að hitta frelsið, og fjallið var bratt og hátt. Ég hafði oftast gamlan hund, feitan og latan. Varð ég oft að elta ærnar upp fyrir brúnir og því oft þreyttur. Kristján Sigurðsson Brúsastöðum/Þegar veðri slotar bls. 52 Sögumaður sat ungur yfir fé á Stóruvöllum í Bárðardal dags. 140215


                                          Heimsókn í Hólaskóla
Stundum komu gestir að Hólum(í Hjaltadal) lengra að og sátu um kyrrt í nokkra daga. Man ég t.d. eftir Brynjólfi Bjarnasyni, bónda í Þverárdal, er var orðlagður höfðingi heim að sækja. Komu þeir saman hann og Guðmundur Erlendsson bóndi í Mjóadal, faðir Sigurðar heitins skólameistara á Akureyri og þeirra systkina. Brynjólfur og Guðmundur dvöldu 2-3 daga. Þeir komu inn í bekkinn til þess að kveðja okkur pilta, ávörpuðu okkur að síðustu í dyrunum, Guðmundur með tveim völdum setningum, en Brynjólfur er var flugmælskur, hélt þar eina af sínum þrumandi ræðum með hurðina í hálfa gátt. Kristján Sigurðsson  bóndi og barnakennari Brúsastöðum/ Þegar veðri slotar bls. 111 Kristján nam við Bændaskólann á Hólum um 1905


                                          Sveit er til á Norðurlandi  Vatnsdalurinn – sem skaparinn hefur vandað svo til, að unun er á að horfa. Engjarnar eru sléttar og á hverju vori flæðir lífgjöful áin yfir þær og flytur þeim frjóefni og næringu. Víða verður grasið svo mikið að röskur maður slær 20–30 hesta á dag. Og sums staðar gerir grasið meira en flekkja sig á engjunum. . . .  – Sá, sem horfir yfir þessa unaðsfögru sveit, getur ekki varist þeirri hugsun, að guð almáttugur hafi skapað hana í algleymisfögnuði og fegurðarnautn yfir freyðandi kampavínsglasi. Í þessari sveit er Hannes Jónsson þm. Vestur-Húnvetninga, borinn og barnfæddur. Ungur hleypti hann trylltum gæðingum yfir sléttur og grundir dalsins, svam í sakleysi æskunnar í lygnum hyljum Vatnsdalsár og fór í langferðir upp um heiðarnar og afréttirnar, inn til Arnarvatns og Þjófadala, þar sem útlagarnir búa, er lifa á fé ráðvandra bænda, silungi í Arnarvatni og fegurð Eiríksjökuls. 
                                                                                            Magnús Magnússon/Palladómar II  Rv. 1930              120115


                               Vefsýslumaður fjarlægði vers sem sett var inn 7. jan.
                                þar var rangt farið með höfundarnafn. Beðist er velvirðingar.

                                                                                                                              070115
                                                    Í Herdísarvík
afskekktum bæ og umluktum hrauni á Reykjarnesi dvaldi Einar Benediktsson skáld síðustu æviár sín í skjóli Hlínar Johnson ráðskonu sinnar. Gunnar prestur á Æsustöðum kom þar og orti: 
                              Hér við ystu úthafsströnd
                              með allan heim að baki
                              rétti skáldi herrann hönd
                              hinsta flugs í taki.                             060115


                                                              Allir sá til eilífs lífs
Guðmundur Jósafatsson á Brandsstöðum/Austurhlíð sagði  frá því að hann hefði slegið bygg sitt á sunnudegi. Það taldi sr. Gunnar á Æsustöðum helgispjöll. Þetta heyrði Pálmi Einarsson og kvað:
                            Hart er lögmál himnum á.
                            Hlýðið Drottins lögum.
                            Upp hér skera enginn má
                            arð á sunnudögum. PE
Prestur svaraði:
                             Í þessum dölum þrauta og kífs
                             það er gert að lögum.
                             Allir sá til eilífs lífs
                             eiga á sunnudögum. GÁ
                  221214

                          Tangarhald á slagæðum samtíðar
Vegferð styrkasta lítilmagnans er á enda. Drengsins frá Spákonufelli, sem náði slíku tangarhaldi á slagæðum samtíðar sinnar, að súla hans varð hvað veglegust þeirra, sem mynda musteri íslenzkrar auðlegðar. . . Peningur í kistu græðir ekki og eins vissi hann að allt er myntinni mögulegt. Svo íheldinn gat þessi fjölkynngisfulli maður verið, að tómlæti hans líktist stundum ömurlegum ofstopa. Tækju menn á sig skuldbindingu yrðu þeir líka að standa við hana. Ella beitti hann þeim ráðum, sem honum einum þótti henta. Af því er sprottnar þjóðsögur. Úr minningagrein Braga Kristjónssonar eftir Sigurð Berndsen kaupsýslumann í Rv./Sómamenn og fleira fólk bls. 140   19.12.14

                                        Sælan mesta
Ingibjörg Blöndal starfaði lengstum á prestsetrinu að Hindisvík en þar var hún ráðskona hjá öðrum ljóðasmiði, sr. Sigurði Norland:
                                            Tíðum þó sé tómlegt hérna
                             og tilgangslaust mig dreymi
                                           – að vera ein með sjálfri sér
                                           er sælan mest í heimi.
  17/12 ´14

                                   Farðu strax að róa
Björn Guðmundsson f. 1748 bjó fyrst í Höfnum á móti föður sínum og síðan á allri jörðinni er Guðmundur fluttist að Auðólfsstöðum. Er faðir hans lést flutti Björn fram að Auðólfsstöðum en átti lengi skip út í Höfnum og hélt því til fiskjar vor og haust. Björn var heppinn formaður og aflasæll og hélt vel við skipi sínu og veiðarfærum. Hann var veðurglöggur og árrisull og reri snemma, er gaf. Það var einhvern tíma síðari hluta nætur, að Björn dreymdi, að maður kvað fyrir honum vísu. Vaknaði hann við það og mundi stökuna. Mun fyrri hlutinn nú gleymdur en síðari helmingur er á þessa leið:
                                        Flýttu þér á fætur Björn
                                        farðu strax að róa.

Lét Björn ekki segja sér það tvisvar, ýtti við hásetum sínum, og með því að sjóveður var gott, hrundu þeir á flot og hvötuðu á miðin. Þeir öfluðu vel um daginn og í hönd fór gæftakafli og aflahrota. 
                                                                                  Magnús á Syðra-Hóli: Hafnamenn á Skaga/Búsæld og barningur


                                                      Út á Vatnsnes 
                                                Út á Vatnsnes er ég kominn.
                                                Ýmsan þekki stig.
                                                Þeir sem eiga hérna heima
                                                heilsa upp á mig. 

                                                                       Sigurður Norland Hindisvík

                       Guð gefur mér en Guðlaug hinum!
Vor nokkurt eftir harðan vetur fór Þorsteinn á Kjörvogi í fyrsta róður vorsins. Þegar hann kom að landi lét hann kasta aflanum upp úr bátnum, skipti honum, en fór svo inn til að leggja sig. Þegar hann vaknaði og ætlaði að fara að gera að aflahlutum sínum, var enginn fiskur á balanum. Stóð Þorsteinn þá um stund þegjandi en sagði svo:„Já, Guð gefur mér en Guðlaug gefur hinum.“ Svipuð atvik endurtóku sig, svo oft munu þurfandi hafa fengið þarna sjófang og fleira án endurgjalds. Heimild: Klénsmiðurinn á Kjörvogi bls. 100 Eiginkona Þorsteins Þorleifssonar var Guðlaug Baldvinsdóttir

                                Klénsmiðurinn á Kjörvogi 
heitir nýútkomin bók eftir Hallgrím Gíslason, Strandamann á Akureyri og segir þar frá Þorsteini syni Hjallalands-Helgu. Hann giftist dóttur Undirfellsprests og þar var brúðkaup haldið en Steingrími á Brúsastöðum var þó ekki boðið. Stgr. kvað: 
                                      Hver er að giftast? Herdís er það.
                                      Hvern á hún? Þorstein besta smið.
                                       Lagsmaður, hvernig líkar þér það?                                          
                                      Ég læt mér það ekki koma við.  
                                       Var þér boðið í veislu þá,
                                       verðugum? Ónei það er frá. 221114

                                                Litla Jörp
Hjallalands-Helga fæddist í Vatnsdalshólum 1797, dóttir Þórarins Jónssonar, sem nefndur var „Galdra-Þórarinn“ og bjó víða í Húnaþingi. Móðir Helgu hét Helga Eyjólfsdóttir. Helga Þórarinsdóttir ólst upp hjá móðurömmu sinni Helgu Sveinsdóttur á Másstöðum í Vatnsdal. Um ellina orti Helga:
                                    Óðum hallar æsku frá,
                                    auðnu glatast týgi,
                                    vonir allar, ást og þrá
                                    eru fallin vígi. 
Þegar Helga var 11-12 ára eignaði hún sér jarpt merfolald. Þá orti hún:
                                Litla Jörp með lipran fót 
                                   labbar götu þvera. 
                                   Hún mun seinna á mannamót 
                                   mig í söðli bera.


                                                           Að þrá sollinn!
Sigurður bóndi í Katadal orti við hryssu sína eftir að hann hafði rakað af henni, óþolinmóðri og horfandi fram til fjallanna:
                                           Eins og hinar, merin mín 
                                           mikið þráir sollinn. 
                                           Hún er orðin heldur fín! 
                                           Hristir drengjakollinn. 


                              Gamall fjallarefur – vísnasafnari 
Vísnasafnari á síðustu öld, Sigurður Jónsson frá Haukagili í Hvítársíðu lýkur þriðju og síðustu bók sinni með skemmtilegri glettu – og hrósi – sem hann fékk frá nafna sínum Snorrasyni á Gilsbakka:
                                 Beitir víða veiðiklónum
                                 á verðinum hann aldrei sefur.
                                 Finnur æti undir snjónum
​                                 eins og gamall fjallarefur.


                                              Haust
                                Kuldinn eykur Kára mátt,
                                kvíða bleikir rindar.
                                Hafa leikið hlíðar grátt
                                haustsins feykivindar.

                                Hægt ég feta hálan veg,
                                heldur letjast fætur,
                                kuldhretum kvíði ég, –
                                komnar veturnæturRósberg G. Snædal


                                     Ek læt akra 
Önundur tréfótur skoðaði sig um á Norður-Ströndum í fylgd Eiríks snöru, sem land hafði numið frá Ingólfsfirði að Ófæru í Veiðileysu. Eiríkur bauð Önundi land að nema: „Þar gekk fjall mikið fram þeim megin fjarðanna og var fallinn á snær. Önundur leit á fjallið og kvað vísu þessa“:
                                   Réttum gengur, en ranga
                                   rinnur sæfarinn, ævi,
                                  fákur, um fold og ríki
                                  fleinhvessanda þessum;
                                  hefi ek lönd og fjöld frænda
                                  flýit en hitt er nýjast,
                                  kröpp eru kaup, ef hreppi ek
                                  Kaldbak, en ek læt akra.

Endursögn Vésteins Ólasonar og Gríms M. Helgasonar á vísunni:
Ævin gengur skrykkjótt hjá þessum hermanni sem reki undan vindi, en skipið skríður vel; ég hef flúið frá landeignum og frændliði, en hitt er nýjast, að ég geri slæm kaup, ef ég hreppi Kaldbak en læt akra.
En Önundur var langafi Grettis Ásmundarsonar frá Bjargi.
                                   Önundur tréfótur
                                   Þorgrímur
                                   Ásmundur hærulangur
                                   Grettir

„Réðst Þorgrímur inn til Miðfjarðar og keypti land að Bjargi með ráði Skeggja. Þorgrímur átti Þórdísi, dóttur Ásmundar undan Ásmundargnúpi, er numið hafði Þingeyrasveit. Þau Þorgrímur og Þórdís áttu son, er Ásmundur hét; hann var mikill maður og sterkur og vitur maður og hærður manna best. Hann hafði snemma hærur í höfði, því var hann kallaður hærulangur eða hærulagður.“
Skýringar á vísu: 
Réttur - rek
Ganga réttum - ganga skrykkjótt, vera sem skip á reki
Ranga(af röng) - innviður, band í skipi
Fákur - hestur, hér skip

Fleinhvessandi - hermaður
                                                                                              Úr Grettissögu - Skuggsjárútgáfan 1970

                                              Lognið hvíta 
                                      Langt er yfir sjó að sjá,
                                                samt er lognið hvíta.
                                                Aldrei má ég æginn blá
                                                ógrátandi líta.

orti Helga Eiríksdóttir Bergsstöðum á Vatnsnesi þegar hún missti unnusta sinn, Sigurðar Bjarnasonar frá Katadal sem drukknaði 1865 og missti þá einnig foreldra sína. Hún giftist aldrei en var lengi ráðskona hjá föðurbróður sínum Guðmundi Arasyni á Ytri-Völlum. 

Lárus Björnsson 1889-1987 í Grímstungu segir: Ég var seinþroska og óx fram yfir tuttugu og fimm ára aldur. Ég gifti mig 1915 og óx upp úr giftingarfötunum. Ég hef stundum hugsað um það, að líklega endist maður betur, ef hann þroskast seint. Mér finnst þrekfólki bráðþroska fara fyrr aftur heldur en fólki sem er lengi að taka út vöxt. Það kann vel vera, að minn vöxtur hafi verið seinni fyrir vinnu og eril.

                                    Af Blönduóssferðum Lárusar
Stöku sinnum var komið við á bæjum, einkum Steinnesi, Hnausum og Sveinsstöðum. Það var svo stutt þangað heim og auk þess miðleiðis fyrir okkur, sem bjuggum framarlega í dalnum. Við vorum einstöku sinnum fimm og allt upp í tíu saman, venjulega færri, en mjög skjaldan að einn maður væri á ferð. Það þótti ekki gott, því að oft þurftum við að aðstoða hver annan, þar sem erfiðast var. Ferðatíminn fór nokkuð eftir veðurfari og sleðafæri, en oftast voru sleðaferðirnar farnar frá áramótum og fram í mars. Eftir það gat ísinn farið að vera viðsjáll og þó stundum fyrr. Lárus í Grímstungu Ak. 1981

 
                                                    Lækur hreini
Baldvin Halldórsson skáldi orti um haust-og vetrarkomu:
                                  Nakin hristast hélustrá.
                                  Hímir kvistur magur.
                                  Nú sig vistar virðum hjá
                                  vetrar fyrsti dagur.
 

                                                              Vorhugur:
                                 Straumur reynir sterkan mátt,
                                 stíflum einatt ryður.
                                 Lækur hreini kvakar kátt
                                 kalda steina viður.


                                          Fannblæja í Þverárdal
   Baldvin skáldi var vinnumaður hjá Brynjólfi í Þverárdal:
                                               Þó fagra beri fannblæju
                                     fjalla hver einn salur,
                                     lítið er um ánægju
                                    í þér Þverárdalur.

   Og enn kvað hann:
                                        Heima róla ég þreyttur þrátt
                                    Þverárdals í greni.
                                    Reynsluskóla gegnum grátt
                                   glampi sólar lýsir smátt.

  Baldvin var eitt sinn staddur á Sauðárkrók,orðinn ölvaður. Þá var hann í vinnumennsku frammi í Skagafirði. Einhverjum þótti hann varla ferðafær heim undir nóttina og (Þorleifur Jónsson) kastaði fram vísuparti:
                                                Varaðu þig vinur minn,
                                                 víða er óslétt gata.....

  Baldvin svaraði að bragði:
                                            Skárri er það skynsemin,
                                            skyldi ég ekki rata.


                                                                  Skokkar blakkur
Guðríður B. Helgadóttir skemmtir okkur með því að safna saman kk orðum og kom 10 slíkum í sömu vísu.
                                       Hnakkinn þakka.-Hrökk í far
                                       hryggjar og klakka slíður.-
                                       Skakkan frakka skipti um þar.
                                       Skokkar blakkur þýður.
 
Gömul vísa geymir sama leik, þar eru téin í kastljósinu:
                                        Eitt sinn þeyttust út um nótt
                                        átta kettir hratt og létt
                                        tuttugu rottur títt og ótt
                                        tættu og reyttu á sléttri stétt
.

                                                          Um frúr og fjósalykt!
Á einokunartímabilinu voru Skagaströnd- og Kúvíkur oftast nær leigðar saman einum kaupmanni. Vegna fámennis í sveitum kringum Kúvíkur komu skip þangað stundum annað hvort ár eða sjaldnar. Launverslun við erlenda sjómenn, var því allmikil. Jón Salómonsen flutti flutti 1820 að Kúvíkum ásamt Sigríði konu sinni sem þótti óvirðing af Kúvíknanafninu og fékk mann sinn til að breyta því í Reykjafjörð sbr. húsganginn:
                         Danir hræðast Hornstrending,
                         halda ´ann vera umskipting.
                         Frúnum öllum finnst í kring
                         fjósalykt af Kúvíking.

                                                                                     Heimild; Árbók FÍ 1952 Strandasýsla

                                                       Vantar 100!
                       Stöðugt flykkjast fleiri menn
                       Framsóknar á prikið,
                       en hundrað vantar Hannes enn
                       helvíti er það mikið.  
Vísan var ort um kosningabaráttu Hannesar á Undirfelli - Hannesar Pálssonar frá Guðlaugsstöðum, sem atti kappi við þingmann austursýslunnar Jón Pálmason á Akri  

                                    Grefur Gylfi?
Það er ekki vísa frá síðasta áratug sem hér verður kynnt í kvöld, heldur er hún hálfrar aldar gömul eða eitthvað eldri, smellið bankarakk, fundið í morgun – mi. 24.9 – í vísnasafni Sigurðar Halldórsson í Skjalasafninu á Blönduósi:

                   Það ætti að hreinsa út með sóp
                   innstu bankasali
                   og reka alla í einum hóp
                   upp í Þjófadali.  Ók. höf

Ráðherrar og þm. Gylfi Þ. Gíslason og Ingólfur Jónsson á Hellu fengu aðra:

                   Ingólfur á Hellu hefur
                   hátt og þykist öllu ráða.
                   En undan honum Gylfi grefur
                   gröf sem nægir fyrir báða. Ók. höf (Úr Tímanum)


                                       Fálátur og óþýður í lund
Klemens Jónsson kom vinnumaður að Höfnum 1786 frá Haukagili í Vatnsdal. Þar hafði hann verið vinnumaður Margrétar, ekkju bróður síns, Ólafs.
Klemens var hæglátur maður og óhlutdeilinn, eljusamur um bú sitt og starfsmaður mikill. Hann var í hærra lagi á vöxt og þrekinn, allmikill burðamaður. Löngum var hann fálátur og óþýður í framkomu. Var svo dögum saman að varla hafðist úr honum orð og þá helst ónot og kaldyrði. Það var skapbrestur hans og kölluðu sumir hann fýlutrant.
. . .
Klemens og Margrét áttu sex börn. Fjögur náður fullorðinsaldri:
1. Valgerður var elst. Hún var vinnukona séra Björns í Bólstaðarhlíð og varð seinni kona 1817. Var aldursmunur þeirra 41 ár, því að séra Björn var 68 ára, en Valgerður 27, er þau komu saman. . . . Hún var hin mætasta kona,alvörugefin, trygglynd og góðhjörtuð.
2. Jón Klemensson varð bóndi í Höfnum
3. Klemens Klemensson í Bólstaðarhlíð, efnamaður, víðkunnur smiður og búhöldur. Kona hans var Ingibjörg Þorleifsdóttir frá Stóradal.
4. Margrét Klemensdóttir, giftist Ólafi Jónssyni frá Tjörn í Nesjum

                                                Búsæld og barningur Magnús Björnsson/Hafnamenn á Skaga

                                                         -  -  -  -  -  -
   
                                            Sveinn á Búðum fái fjúk
                                             fékk hann hana Stínu
                                             öndin spriklar öfundsjúk
                                             innaní brjósti mínu.

Sveinn Guðmundsson frá Búðum á Snæfellsnesi  var verslunarstjóri hjá Valdimar Bryde kaupmanni á Borðeyri sem reisti þar verslunarhús 1878. Kona Sveins, Kristín Edvardsdóttir, þótti forkunnarfögur og Kristján Fjallaskáld orti vísuna um giftingu þeirra.

                                                             Grænir stökuskógar
Um haustið orti Jónas Tryggvason:
                                            Mun ei saka dáðadrengi
                                           dymbilvaka hausts og snjóa.
                                           Þó fölna taki fjöll og engi
                                           finnur stakan græna skóga.

                                           Í Stafnsrétt kvað Jónas:
                                           Kvölda fer um farinn veg
                                           flestum þorrið tárið.
                                           Nú er drukkið allt sem eg
                                           átti í morgunsárið. 


                                                                     - - - - - - -

                                            Kolkumýrar kennir þjóð
                                            sem kallast Ásar núna.
                                            Útbeitin er yfrið góð
                                            en erfið ræktun túna.
Þessa vísu tilgreinir Páll Kolka í héraðsriti sínu, Föðurtúnum, sem hann skrifaði og gaf út 1950. Þá var Páll að lýsa Ásunum, sveitinni fyrir sunnan Blönduós, sem oftast er kennd við þingstaðinn Torfalæk. Síðan kemur lýsing Blönduóss og önnur vísa sem Kolka hefur trúlega sjálfur samið, enda nefnir hann ekki annan höfund til                                                                        
                                    Hér stóð í fyrndinni Klifakot,
                                    kýrfóðurstúnskiki sunnan við Blöndu.
                                    Umhverfið: Melar og mýri vot.
                                    Menjar þess: Vallgróið tóftarbrot.                                   
                                    Og saga þess: Slóð yfir sandorpna öldu. Föðurtún bls. 186-187

                                            Að firrast nauð


„Reyndu nú að girða þig betur góði minn“ sagði amma stundum við unglinginn en
Jóni í Tandraseli tókst betur til eins og hann tíundar í vísu sinni hringhendri:
                                     Nú er virtur njótur fleins
                                     nauða firrtur skorðum,
                                     nú er skyrtan ekki eins
                                     illa girt og forðum. 

                                                                                                                                               Lausavísur 1400-1900 valdar af Sveinbirni Beinteinssyni bls. 117

                                                          Nú er duggan komin!

Í gamalli vísu er rifjað upp hvað skipakomur voru miklar fréttir og góðar fréttir, þau fluttu til landsins járn og salt og gráfíkjur og svo tóbakið:

                                     Nú er úti neyð og þrá
                                     nú er duggan komin,
                                     nú er tóbak nóg að fá
                                     nú skal fylla hvominn.                                        Áin reyndist of ströng! 
   Á Fossum bjó maður að nafni Guðmundur Þorkelsson. Kona hans hét Kristbjörg Snjólfsdóttir. Þau voru gestrisin og nutu Stafnsréttagestir þar hinnar mestu rausnar. Var orð á því, að þar væri miklu eytt, bæði af kaffi og tóbaki. Guðmundur var dugnaðarmaður, glaðlyndur og lét vaða á súðum, þegar hann var kenndur sem harla oft bar við. Orti hann þá þó lítill væri hann hagyrðingur. Ein vísa sem hann gerði á heimleið úr kaupstað er svona:
            Fjóra potta flyt eg á Sokka mínum,
            fulla líka á flöskuna,
            fram að Fossum Gvendar.
   Einu sinni snemma um vor leggur Kristbjörg af stað út að Stafni, því að tíðar samgöngur voru milli bæjanna. Ætlaði hún sér að vaða ána, komst út í hólma í ánni, en áin var í vexti og treysti hún sér ekki til að vaða yfir aðalkvíslina, en bíður þar í hólmanum. Svo stóð á í Stafni, að enginn karlmaður var heima. Vildi nú Margrét koma nágrannakonu sinni til hjálpar og lagði af stað með stúlkur sínar, þar sem hún hélt að þær gætu vaðið yfir til Kristínar, ef þær leiddust en áin reyndist of ströng svo að þær urðu að snúa aftur. Aumingja konan þorði ekki að hreyfa sig úr hólmanum en áin óx og seinast var farið að vatna alveg að fótum hennar. Kom þá einn heimamanna í Stafni heim og reið hann yfir í hólmann til Kristbjargar og flutti hana til sama lands aftur. Þá sagði hún með mestu hægð: Sér er nú hvað að standa svona í ánni.
   Þegar hjón þessi voru orðin gömul og efnalítil, urðu þau að hrökklast til Ameríku.
                                                                                               Hlynir og hreggviðir/Kristín Sigvaldadóttir Skeggsstöðum: Margrét í Stafni

Manntal 1880 Fossar
Guðmundur Þorkelsson húsbóndi 47 ára
Kristbjörg Snjólfsdóttir kona hans 53 ára
Þorlákur Guðmundsson sonur þeirra 12 ára
Margrét Elísabet Guðmundsdóttir dóttir bónda 6 ára
Guðrún Sölvadóttir vinnukona 47 ára

Í næsta manntali sem var tekið 1890 eru komin þangað hjónin Guðmundur Sigurðsson og Engilráð Sigurðardóttir, afi og amma Fossabræðranna; Sigurjóns, Sigurðar og Sigurbjörns Guðmundssona

                                             Í veitingaskúrnum þekkist ekki þögn  
      Rósberg kom stundum í réttirnar – Stafnsrétt – alla leið frá Akureyri og hér að neðan má lesa pistil hans og vísur frá því í bók hans Skáldið frá Elivogum. Hann segir þar:
      Ennþá helst sá gamli góði siður á dansa á bala Stafnsréttar eins og daladrósirnar gerðu á velmektardögum Símonar Dalaskálds. Þessi vísa hans er landskunn:
                        Hér ég skal til skemmtunar
                   skálda fjörug ljóðin
                   meðan daladrósirnar
                  dansa á bala Stafnsréttar.

    Lítill veitingaskúr er sunnan við réttina. Þar selja kvenfélagskonur úr Bólstaðarhlíðarhreppi kaffi og með því. Þar inni rennur margur svartur sopi um kverkar – og kannski annað sterkara með, en það fer eftir efnum og ástæðum hvers og eins. Í veitingaskúrnum þekkist ekki þögn.
Um hádegisbil á miðvikudag rennur safnið saman í Lækjahlíðinni, bæði fé og hross:
                         Haustið býður öllum oss:
                    Úti er blíða og friður.
                    Safnið líður líkt og foss
                    Lækjarhlíðar niður. --  
RGSn
Það er fögur sjón og ógleymanleg að sjá þessar ótöldu þúsundir bylgjast fram af brúninni og flæða niður hlíðina. Beljandi flaumur, lagðprúður, líflegur, harmar liðið heiðasumar og gengur nú mönnunum – og dauðanum – á vald. Það hillir undir gangnaröðina á brúnunum, eins og svartan skörðóttan múr umhverfis hina ljósu hjörð. Í sama mund byrjar réttafólkið að streyma utan Svartárdal til réttarinnar, margir boðaðir af skyldum, en fleiri eru þó boðflennur. Það verður fljótt ys og þys á eyrinni; mótorskellir, hófaglamm og hundagelt blandast kveðjum og kossasmellum, kunningjarabbi og kveðskap.
                               Gott er að hafa glaða lund
                         geta af fátækt sinni
                         dags frá önnum eina stund
                         offrað Stafnsréttinni. 

                                                                           Jónas Tryggvason
Já það fljúga stundum vísur mæltar fram af skyndingu. Tilefni og tildrög eru ekki ætíð ljós eða ærin. Það liggur vel á öllum eins og hamingjan sanna bíði þeirra í seilingarfæri. Menn eru opinskáir, hátalaðir og þó rómantískir.
                        Bliknar margt og bleik er grund,
                        blómaskart í valnum,
                        á þó hjartað óskastund
                        innst í Svartárdalnum.

                                                                                   RGSn
                                                                       Rósberg G. Snædal/Skáldið frá Elivogum og fleira fólk 1973 bls.98-99Á Auðunarstöðum í Víðidal fæddist Arngrímur Jónsson árið 1568, síðar nefndur hinn lærði og  hann lék sér að því eins fleiri að gera ferskeytlur:
                                           Lofað hef ég að láta í T
                               ljóðaversin furðu H.
                               Þenkir margur þetta C
                               þegi gott að finna upp Á.